Lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns

Suðurlandsdeildin 2021, samsettar myndir3

Suðurlandsdeildin 2021 – Lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartún

Þriðja liðið sem við kynnum til leiks af þeim fjórtan sem taka þátt í deildinni í vetur er lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartún.

Keppni í Suðurlandsdeildinni hefst þann 2. mars n.k. með keppni í Parafimi. Suðurlandsdeildin verður í beinni útsendingu í vetur á ALENDIS.

Styrktaraðilar liðsins eru:

Árbæjarhjáleiga
Árbæjarhjáleiga er hrossaræktarbú staðsett í Rangárþingi Ytra. Þar stunda Kristinn Guðnason og Marjolijn Tiepen hrossarækt sína. Þar rekur Hekla Katharína Kristinsdóttir tamningastöð ásamt eiginmanni sínum Eiríki Vilhelm Sigurðarsyni. Flaggskip Árbæjarhjáleigu búsins er Jarl frá Árbæjarhjáleigu og hafa hross undan honum verið að gera það gott bæði á kynbóta- sem og keppnisbrautinni.
Árið 2020 var Árbæjarhjáleiga kosið Keppnishestabú ársins á landsvísu og einnig hjá Hestamannafélaginu Geysi.
Hjarðartún
Í Hjarðartúni reka Bjarni Elvar Pjetursson og Kristín Heimisdóttir metnaðarfulla hrossarækt ásamt tamningastöð sem er staðsett í Hvolhreppi rétt norðan við Hvolsvöll.
Hjarðartún var ræktunarbú Geysis árið 2020

Liðsstjóri liðsins er Hekla Katharína Kristinsdóttir, Árbæjarhjáleigu, og hefjum við kynninguna á henni.

Nafn: Hekla Katharína Kristinsdóttir

Aldur: 30 ára

Fjölskylduhagir: Gift Eiríki Vilhelm Sigurðarsyni og saman eigum við tvö börn. Vilhelm Bjartur Eiríksson (5.ára) og Áslaug María Eiríksdóttir (3.ára).

Atvinna: Hestaþjálfari, reiðkennari og landsliðsþjálfari U21 árs landsliðs Íslands í hestaíþróttum.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Ég stefni klárlega á allar greinar en í augnablikinu er ég svona líklegust í tölt, fjórgang og parafimi.

Markmið með þátttöku í deildinni: Undirbúa hrossin mín fyrir keppnissumarið og halda mér á tánum í samkeppninni. Um leið og maður fer að reyna sig við aðra frábæra knapa er maður fljótari að finna hvað vantar uppá hjá manni sjálfum sem knapa og einnig það sem maður þarf að bæta í þjálfuninni.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir veturinn: í augnablikinu myndi mig virkilega langa til að vera tilbúin með alvöru skeiðhest og þá er að sjálfsögðu bara einn sem kemur til greina og er það minn gamli vinur Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu.

Aðrir atvinnumenn liðsins eru.

Nafn: Hans Þór Hilmarsson

Aldur: 37 ára

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Arnhildi Helgadóttur.

Atvinna: Tamningamaður í Hjarðartúni.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Ég stefni á þátttöku í fimmgangi, tölti og skeiði.

Markmið með þátttöku í deildinni: Markmiðið er að koma vel fyrir og reyna að safna eitthvað af stigum fyrir liðið mitt með þau hross sem ég hef uppá að bjóða.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir veturinn: Ég myndi gjarnan vilja hafa Lukku frá Stóra-Vatnsskarði í húsinu til að grípa í.

Nafn: Arnhildur Helgadóttir.

Aldur: 27 ára.

Fjölskylduhagir: Sambúð með Hans Þór og einkasonur okkar Eiður Örn sem er að verða 2.ára.

Atvinna: tamningamaður, reiðkennari og staðarhaldari í Hjarðartúni.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Ég stefni á þátttöku í flestum greinum.

Markmið með þátttöku í deildinni: Bæta mig sem reiðmann og setja mér markmið með hestana, í Hjarðartúni eru ung og efnileg hross og er deildin tilvalinn vettvangur til að koma fram .

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir veturinn: Svarta-Perla frá Álfhólum – heillandi hryssa.

Áhugamenn liðsins eru:

Nafn: Rakel Nathalie Kristinsdóttir

Aldur: 28 ára

Fjölskylduhagir: í sambúð með Gísla Guðjónssyni og eigum við eina 1.árs gamla dóttur.

Atvinna: Læknir

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Stefni á að taka þátt í öllum greinum nema skeiðinu.

Markmið með þátttöku í deildinni: Markmiðið er fyrst og fremst að koma sér aðeins aftur í gang eftir mörg ár frá keppni. Alltaf gaman líka að vera hluti af liði, sérstaklega svona skemmtilegu liði eins og okkar.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir veturinn: Hann Vígar minn frá Skarði kemur að sjálfsögðu upp í hugann fyrst, mesti gæðingur sem ég hef kynnst. Held að hann hefði haft gaman af því að rifja upp gamla tímann.

Nafn: Rúna Björg Vilhjálmsdóttir.

Aldur: 28 ára.

Fjölskylduhagir: Matti kærastinn minn og sonur okkar hann Arnar Ingi sem er fæddur 2020.

Atvinna: Bókari.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Parafimi og fjórgangur. Spurning um parafimi?

Markmið með þátttöku í deildinni: Hafa gaman 😊

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir veturinn: Bara hana Hrefnu mína held ég, ég kann ágætlega við hana en hún átti folald seinasta sumar.

Nafn: Anna Margrét Geirsdóttir

Aldur: 27 ára.

Fjölskylduhagir: Einhleyp

Atvinna: starfsmaður í Hjarðartúni.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Fimmgang og tölti.

Markmið með þátttöku í deildinni: Öðlast meiri keppnisreynslu og standa mig vel.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir veturinn: Hnokka frá Fellskoti.