Lið Smiðjan Brugghús

Lið Smiðjan Brugghús

Suðurlandsdeildin 2021, samsettar myndir1

Annað liðið sem við kynnum til leiks af þeim fjórtan sem taka þátt í deildinni í vetur er lið Smiðjunnar Brugghús.

Liðið kallar sko ekki allt ömmu sína og leggur gríðarlegan metnað í þátttöku í deildinni!

Keppni í Suðurlandsdeildinni hefst þann 2. mars n.k. með keppni í Parafimi. Suðurlandsdeildin verður í beinni útsendingu í vetur á ALENDIS.

Liðið dregur nafn sitt af Smiðjunni Brugghús sem er handverksbrugghús og veitingastaður í Vík í Mýrdal. Smiðjan Brugghús leggur mikla áherslu og metnað í djúsí hamborgara, rif, vængi og fyrsta flokks handverksbjór.

 

Liðsstjóri liðsins er Hjördís Rut Jónsdóttir og keppir hún sem áhugamaður

 

Nafn: Hjördís Rut Jónsdóttir liðstjóri liðs Smiðjunnar Brugghúss.

Aldur: Í anda er ég klárlega 25 en kennitalan segir 43 ára.

Fjölskylduhagir: Gift Inga Má Björnssyni, á 3 börn og 1 splunkunýtt barnabarn.

Atvinna: Er menntaður leikskólakennari sem að kemur sér vel í liðsstjóra hlutverkinu en starfa sem skólabílstjóri og móttökuritari á Heilsugæslustöðinni í Vík.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Það er hörð keppni innan liðs Smiðjunnar Brugghúss og metnaður mikill að tefla fram því allra besta. Þannig að við sjáum til, en mig langar í fimmgang og skeið, varð skeiðsjúk þegar að ég datt inn á miðjan aldur.

Markmið með þátttöku í deildinni: Markmið með þátttöku í deildinni er klárlega að eyða meiri tíma með liðsfélögum mínum í liði Smiðjunnar Brugghúss, bæta mig sem knapa og næla mér í reynslu á brautinni.  Við erum dugleg að hittast og æfa okkur og hefur því undirbúningurinn eflt okkur öll og bætt sem knapa enda þjálfari okkar ekki af verri endanum, Sylvía Sigurbjörnsdóttir.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir keppnistímabilið: Héðinn Skúla frá Oddhóli, hann hefur alltaf heillað mig með sínu fasi, útgeislun og fótaburði.

 

Aðrir áhugamenn eru:

 

Nafn: Vilborg Smáradóttir liðsmaður og fyrrverandi liðsstjóri Smiðjunnar Brugghúss, var sett af vegna óstundvísi.

Aldur: Náði stórum tug í lok síðasta árs og er því formlega orðin miðaldra.

Fjölskylduhagir: Móðir 18 ára dekurrófu og 20 ára akstursíþróttakappa.

Atvinna: Fjármálastjóri og bókari, en er einnig í 100% starfi sem áhugamaður í hestaíþróttum.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: : Öllu sem býðst eins og alltaf, hef hingað til náð að frekjast í flest en á þó ekkert í yfirburðaráðríki liðsstjórans svo það verður að koma í ljós hvað tekst að koma sér í.

Markmið með þátttöku í deildinni:  Að bæta mig sem reiðmann, hafa góða ástæðu til að vera á fartinu um Suðurlandið fram og til baka á GMC dósinni minni og ekki síst að njóta frábærs félagsskapar liðsfélaganna og annarra.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir keppnistímabilið:  Finnboga frá Minni-Reykjum því ég hef sérstakt blæti fyrir því að baða ljós hross! Svo heilla alltaf gráir gæðingar.

 

Nafn: Guðbrandur Magnússon liðsmaður Smiðjunnar Brugghúss.

Aldur: 58 ára.

Fjölskylduhagir:  Giftur Kristínu Lárusdóttur og eigum við Lárus og Svanhildi

Atvinna: Menntaður smiður en starfa sem bóndi.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Stefni að taka þátt í öllum greinum.

Markmið með þátttöku í deildinni:  Gott að fara aðeins að heiman og  hitta skemmtilegt fólk, taka þátt í keppni og hafa gaman. Einnig hef ég það hlutverk innan liðsins að að vera einka driver fyrir liðsstjórann, snúast í kringum rassgatið á henni og orða það „örlítið“ við hana hvað Fordinn minn er svakalega góður.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir keppnistímabilið: Þokka frá Efstu Grund.

 

Atvinnumenn liðsins eru:

 

Nafn:  Hlynur Guðmundsson liðsmaður Smiðjunnar Brugghúss.

Aldur:  32 ára.

Fjölskylduhagir:  Í sambúð með Bjarney Jónu Unnsteinsdóttur og við eigum einn son.

Atvinna:  Kústur í hesthúsinu hjá Bjarneyju.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum:  Í þeim greinum sem liðið vill hafa mig í.

Markmið með þátttöku í deildinni:  Hitta fólk og hafa gaman.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir keppnistímabilið:  Öskju frá Efstu-Grund.

 

Nafn: Kristín Lárusdóttir liðsmaður Smiðjunnar Brugghúss.

Aldur: Korter í ½ hundrað

Fjölskylduhagir: Gift Guðbrandi Magnússyni, á 2 afkvæmi, Svanhildi og Lárus.

Atvinna: Er menntuð frá Hólum með reiðkennararéttindi, starfa sem tamningamaður.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum: Allar greinar ekki spurning, sérstaklega skeið, Hlynur á ekki breik þar.

Markmið með þátttöku í deildinni: Markmið með þátttöku í deildinni er klárlega að bæta mig sem reiðmann, að hitta skemmtilegt fólk og ræða við það um kosti FORD en galla RAM og GMC.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir keppnistímabilið: Storm frá Herríðarhóli eins og hann var á Íslandsmóti 2014.

 

Nafn:  Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir liðsmaður Smiðjunnar Brugghúss.

Aldur:  28 ára.

Fjölskylduhagir:  Er í sambúð með Hlyni Guðmundssyni, höfum getið af okkur eitt afkvæmi, Unnstein Heiðar bráðum 2 ára.

Atvinna: Tamningamaður og reiðkennari.

Stefni á þátttöku í eftirfarandi greinum:  Neydd í parafimi, hitt kemur í ljós.

Markmið með þátttöku í deildinni:  Bæta mig sem reiðmann, fá fleiri hugmyndir að þjálfun og enn meiri reynslu í að koma fram. Félagsskapurinn er svo punkturinn yfir I-ið. Liðið er virkilega samheldið og æfingarnar toppurinn í hverri viku.

Hvaða hest lífs eða liðinn myndir þú vilja fá í hendurnar til að styrkja hestakostinn fyrir keppnistímabilið:  Kötlu frá Hemlu