Rangárbakkar

Rangárbakkar, þjóðaleikvangur íslenska hestsins ehf.

Rangárbakkar eru staðsettir sunnan við þéttbýlið á Hellu. Svæðið hefur verið notað allt frá árinu 1955 fyrir viðburði tengda hestamennsku, en það ár fór fyrsta fjórðungsmótið á Suðurlandi fram. Síðan þá hefur svæðið verið endurbætt margsinnis eftir kröfum nútímans. Landsmót hestamanna hafa farið þar fram 5 sinnum, árin 1986, 1994, 2004, 2008 og 2014. Landsmót 2008 var fjölmennasta mót í sögu Landsmóta hestamanna.

Á svæðinu eru tveir löglegir keppnisvellir fyrir gæðinga- og íþróttakeppni. Þá er þar stór hringbraut sem nýtt hefur verið fyrir kynbótadóma og kappreiðar, en sá völlur er alls um 1.000 metrar að lengd. Að auki er sjálfstæð 4 m breið braut við svokallaðan B-völl á austurhluta svæðisins, sú braut var endurbætt vorið 2011 í samráði við Búnaðarsamband Suðurlands vegna kynbótasýninga. Við þann völl er jafnframt mjög vel útfærður söfnunar(“collection”) hringur. Brekkur eru góðar á svæðinu við alla velli. Stórt malbikað plan er á svæðinu sem nýtt hefur verið síðustu þrjú landsmót. Þá er þar félagshús sem er tæpir 290 fermetrar að stærð og notað hefur verið sem stjórnstöð, mötuneyti og aðstaða fyrir blaðamenn á undanförnum landsmótum. Nýr vegur verður lagður sem gerir það að verkum að tvær aðkomur verða inná og útaf svæðinu og er hann á nýsamþykktu deiliskipulagi.

Stóðhestahús er á svæðinu með 28 eins hesta stíum. Þá eru við stóðhestahúsið 3 aðskilin gerði. Þá er einnig á svæðinu salernishús með vatnssalernum sem notað hefur verið undanfarin ár. Keppnis- og kynbótavellir á svæðinu eru í mjög góðu ásigkomulagi enda mikið notaðir.
Þá eru á svæðinu bílastæði fyrir nokkur þúsund bíla auk annarra plana sem urðu til fyrir LM2008 og LM2014 og nýta má með ýmsum hætti. Rangárbakkar eiga 280 rafmagnstengla fyrir hjól- og fellihýsi, sem settir voru niður fyrir LM2008 og notaðir aftur fyrir LM2014. Þessi búnaður verður áfram á svæðinu en við gerum okkur grein fyrir að hann gæti þarfnast viðhalds eftir fimm ár.

Utan um keppnissvæðið eru opin svæði sem nýtt hafa verið undir tjaldstæði, beitarhólf og leiksvæði á síðustu landsmótum. Aðstæður á tjaldsvæðum eru góðar. Fyrir undanfarin landsmót hefur verið plantað mikið af trjám og settar upp manir til þess að brjóta vind. Tjaldsvæðin eru því nokkuð skjólgóð. Áfram verður samt sem áður unnið að því að bæta þessa aðstöðu með markvissum hætti í samstarfi við Rangárþing ytra.

Frá síðustu aldamótum hefur gríðarlega mikið starf verið unnið á vegum Skógræktarfélags Rangæinga og Landgræðslu ríkisins ofl. við trjáplöntun á því landi sem umlykur Rangárbakka. Þar er nú að vaxa upp s.k. Aldamótaskógur sem er frábært útivistarsvæði með fjölbreyttum göngu- hjóla- og reiðstígum.

Eigendur Rangárbakka eru:

Hluthafar í Rangárbökkum. hlutafé %
Ásahreppur 634.943 0,83
Grímsnes og Grafningshr 338.645 0,44
Mýrdalshreppur 104.950 0,14
Rangárþing Ytra 4.894.738 6,41
Rangárþing Eystra 5.499.529 7,20
Skaftárhreppur 104.950 0,14
Skeiða og Gnúpverjahr 420.700 0,55
Hestamannafélagið Geysir 37.699.058 49,34
Hestamannafélagið Kópur 3.628.200 4,75
Hestamannafélagið Ljúfur 3.628.200 4,75
Hestamannafélagið Logi 3.628.200 4,75
Hestamannafélagið Sindri 3.628.200 4,75
Hestamannafélagið Sleipnir 3.450.000 4,51
Hestamannafélagið Smári 3.628.200 4,75
Hestamannafélagið Trausti 3.628.200 4,75
Helluverk ehf 605.022 0,79
Annir ehf 312.495 0,40
Ljósá ehf 579.765 0,76
     
Samtals. 76.413.995 100,00

Þjóðaleikvangur íslenska hestsins

Hugmyndir um þjóðaleikvang íslenska hestsins eru að koma upp safni tengdu íslenska hestinum, heiðurshöll, og hún yrði staðsett í Rangárhöllinni. Haldinn yrði árlegur viðburður, þar sem fram kæmu bestu hestar á Íslandi. Knapi ársins og hestur ársins yrðu á hverju ári krýndir inn í heiðurshöllina á þjóðaleikvanginum. Þjóðaleikvangur stendur fyrir það að þessar tilnefningar eru ekki einskorðaðar við Ísland heldur Íslenska hestinn um heim allan.