Parafimi reglur

Parafimi er keppnisgrein þar sem reynir á ganghæfileika, fegurð, kraft og glæsileika hestsins. Knapar eru í pörum inná, einn atvinnuknapi og einn áhugamaður og því reynir einnig á samvinnu þeirra. Parið getur verið skipað tveimur áhugamönnum. Tilkynna þarf þá hvor knapinn keppir í stað atvinnumannsins. Tveir atvinnumenn geta ekki myndað par.

Sýnendur hafa hámark 3 mínútur og 45 sekúndur til þess að sýna það besta sem knapar og hestar hafa uppá að bjóða. Þulur lætur knapa vita þegar 30 sekúndur eru eftir af tímanum.  Þegar parið á undan hefur lokið sinni keppni er næstu keppendum frjálst að koma inná til að undirbúa sig og ríða um á meðan tölur eru lesnar upp. Knapar skulu hneigja sig í upphafi verkefnis og þá fer tímataka í gang. Einnig skal hneigja sig þegar verkefni lýkur og þá lýkur tímatöku. Knapar skulu bíða eftir leyfi frá þul til að hefja sína sýningu.

Sýnendur eru dæmdir af sex dómurum sem dæma í þremur pörum. Fyrsta dómaraparið dæmir gangtegundir, annað parið dæmir æfingar og þriðja parið dæmir fjölhæfni, framkvæmd og reiðmennsku.  Nákvæmari lýsingar á hverri einkunn má finna hér fyrir neðan.

 

Dómarapar 1:  Einkunn fyrir gangtegundir

Dómaraparið skiptir með sér verkum og dæmir hvor dómari annan knapann fyrir allar sýndar gangtegundir.  Lokaeinkunn hvors knapa er svo reiknuð út frá tveimur bestu gangtegundum hvors fyrir sig og heildareinkunn parsins fyrir gangtegundir er meðaltal beggja knapa. Til að fá fullnaðareinkunn fyrir gangtegundirnar tölt, brokk, stökk og skeið skal sýna þær sem nemur vegalengd einnar langhliðar samfleytt (ca 45 metra). Fyrir fulla einkunn á feti skal sýna það að lágmarki 20 metra samfleytt.

 

Dómarapar 2:  Einkunn fyrir æfingar

Dómaraparið skiptir með sér verkum og dæmir hvor dómari annan knapann fyrir allar sýndar æfingar.  Lokaeinkunn hvors knapa er svo reiknuð út sem meðaltal einkunna fyrir opinn sniðgang auk tveggja annarra hæst dæmdu æfinga hvors fyrir sig, heildareinkunn parsins fyrir æfingar er meðaltal beggja knapa.

Hér fyrir neðan er listi yfir æfingar sem eru í boði og telja til dóms fyrir æfingahluta keppninnar.  Hver knapi skal framkvæma æfingu númer 12, opinn sniðgang, á gangtegund að eigin vali, en þessi æfing er skylduæfing.  Auk hennar skal sýna að lágmarki tvær aðrar æfingar.  Ekkert hámark er á fjölda æfinga.

Allir knapar þurfa að skila inn á þar til gerðu eyðublaði lista yfir þær æfingar sem framkvæmdar eru í sýningunni, og í hvaða röð þær eru sýndar. Ef þessu eyðublaði er ekki skilað inn þá fá knapar ekki einkunn fyrir þetta atriði. Einungis er gefin einkunn fyrir þær æfingar sem knapi hefur merkt við á eyðublaðinu. Dómarapör 2 og 3 fá þetta eyðublað í hendurnar fyrir sýningu til að gera dómgæslu markvissari.

Listi yfir æfingar og atriði sem helst eru til hliðsjónar við dóm á æfingum.

Í öllum fimiæfingum er lögð áhersla á það að hesturinn framkvæmi þær í réttri líkamsbeitingu, af lipurð og öryggi. Æfingarnar skulu framkvæmdar þannig að þær bæta hestinn í framhaldinu.

Nr. – Æfing – framkvæmd

 1. Skipt yfir allan völlin – Nákvæmar beygjur og hestur beinn.
 2. Riðið á hringnum – Rétt lögun hrings, jafn hraði.
 3. Taumur gefinn – Hestur þiggi að lengja háls fram og niður í taumsambandi.
 4. Slöngulínur – Lögun slöngulína, jafn hraði, mýkt í skiptingum innri hliða.
 5. Riðin átta – Lögun áttu, jafn hraði, mýkt í skiptingum innri hliða.
 6. Framfótasnúningur – Rétt fótavinna, afturfætur krossa, lenging yfirlínu.
 7. Krossgangur – Rétt fótavinna, fram- og afturfætur krossa, lenging yfirlínu.
  Vegalengd krossgangs er u.þ.b. 10 metrar eða það sem samsvarar vegalengdinni frá sporaslóð að miðlínu.
 8. Hraðabreytingar – Mikilvægt er að í hraðaaukningu lengi hesturinn skrefin en auki ekki tíðni skrefa.
 9. Stöðvun-bakk – Mýkt í stöðvun og ábendingum, hestur bakki beinn.
 10. Afturfótasnúningur – Hestur lækki lend og teygi ytri hlið utan um innri hlið, rétt fótavinna.
 11. Lokaður sniðgangur – Hestur gangi á 3 sporaslóðum. Jöfn sveigja í skrokk frá hnakka aftur í tagl.
 12. Opinn sniðgangur – Hestur gangi á 3 sporaslóðum. Jöfn sveigja í skrokk frá hnakka í tagl.
 13. Ríða fram miðlínu – Hesturinn gangi beinn, góð stjórn á hliðum.

 

Æfingar sem hægt er að gera upp á báðar hendur þ.e. æfingar 1, 2, 6, 7, 10, 11 og 12, þarf að sýna upp á báðar hendur og gildir það þá sem ein æfing.

Einkunnir fyrir æfingar:

Vegalengd til að fá fullgilda einkunn fyrir æfingu nr. 3, 11 og 12 eru að lágmarki 12 metrar.
Vegalengd til að fá fullgilda einkunn fyrir æfingu nr. 9 eru 5 skref.
Hægt er að fá 0 til 10 fyrir allar æfingar sem eingöngu er hægt að framkvæma á feti, þetta eru æfingar nr. 6 og 9.
Fyrir æfingu nr. 1, 2, 3, 4, 8 og 13 er hæst hægt að fá 6 ef æfingin er sýnd á feti, en 9 ef hún er sýnd á öðrum gangtegundum.
Fyrir æfingar nr. 5,  7, 11 og 12 er hæst hægt að fá 8 fyrir að sýna þær á feti, en 10 fyrir að sýna þær á öðrum gangtegundum.

 

Góð æfing framkvæmd án stuðnings við vegg gefur hærri einkunn en góð æfing sem framkvæmd er við vegg.

 • Opinn sniðgangur við vegg er reiknaður með stuðlinum 0,8 við vegg en á opnu svæði 1.
 • Lokaður sniðgangur við vegg er reiknaður með stuðlinum 1 við vegg en 1,2 á opnu svæði.

Að ríða æfingu nr. 10 (afturfótasnúning) á hraðari gangtegund hefur stuðulinn 1,2.

 

Dómarapar 3:  Flæði

Þetta dómarapar dæmir saman heildaryfirbragð sýningarinnar og gefur þrjár einkunnir sem byggja á eftirfarandi og vega allar jafnt:

 

A:  Framkvæmd

 • Knapar vinna vel saman og það er samræmi í sýningunni
 • Knapar velja tónlist sem passar þeirra verkefni
 • Knapar velja sér búninga/útlit sem passar þeirra verkefni
 • Knapar eru á fallega hirtum hestum

Ef sýning fer fram yfir 3 mínútur og 45 sekúndur þá eru dregnir 2 heilir af heildareinkunn fyrir framkvæmd.

 

B:  Fjölhæfni

 • Knapar sýna fjölbreyttar reiðleiðir.
 • Knapar sýna fjölbreyttar æfingar og æfingar sem ekki eru tilgreindar í æfingahluta. Dæmi um þess konar æfingar geta verið hneiging, brokk á staðnum, hestur fellur á hné og margt fleira.
 • Knapar sýna falleg mynstur sem gera verkefni þeirra aðlaðandi.
 • Knapar sýna hesta sína á fjölbreyttum hraða á sömu gangtegund

 

 • C: Reiðmennska
 • Knapar sýna góða stjórn á hestum sínum. Hestarnir skilja og framkvæma það sem knapar biðja um áreynslulaust
 • Knapar sýna hesta sem geisla af orku undir stjórn. Fas hrossa er eftirtektarvert.
 • Knapar hafa fallega og virka ásetu. Áseta og stjórnun sem hjálpar hestinum að framkvæma þau verkefni sem fyrir hann eru lögð.